Umbætur á regluverki raforkumála

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú að finna drög að frumvarpi til breytinga á raforkulögum, drög að breytingu á reglugerð um veginn fjármagnskostnað, yfirlit yfir aðgerðir til umbóta á regluverki á sviði raforkumála og skýrsla Deloitte um greiningu á regluverki og fyrirkomulagi er varðar flutning og dreifingu raforku.

Með þessum tillögum sem settar hafa verið í opið samráð eru lagðar til ýmsar breytingar sem eiga það sameiginlegt að markmið þeirra er að ná fram umbótum sem miða að því að auka gagnsæi á regluverki og fyrirkomulagi er varðar flutning og dreifingu raforku, stuðla að betri skilningi á forsendum ákvarðanatöku, auka skilvirkni, einföldun og hagkvæmni sem skili sér almennt í lægri gjaldskrám til notenda án þess að gæðum sé fórnað. Markmið breytinganna er að hvetja til hagræðingar hjá sérleyfisfyrirtækjum, bæta afhendingaröryggi og tryggja skilvirkt og gagnsætt eftirlit.

Helstu efnisatriði lúta að aukinni skilvirkni og einföldun við setningu hagræðingarkröfu fyrir sérleyfisfyrirtæki, stytta viðmiðunartíma fyrir markaðsvexti hvað varðar ávöxtunarkröfu, bæta yfirsýn og eftirlit með fjárfestingaráætlunum dreifiveitna, aukin áhersla lögð á gæði raforku og afhendingaröryggi, dregið úr hvötum til að fresta viðhaldi, endurskoðun á hlutfallstölum um leyfða arðsemi til að mæta kostnaði við veltufjármuni, breytingar á eignarhaldi flutningsfyrirtækisins, raforkuöryggi skilgreint og sett í markmiðsgrein raforkulaga, aukinn skýrleiki við ákvörðun rekstrarkostnaðar, aukin skilvirkni og einföldun við framlagningu kerfisáætlunar, aukinn sveigjanleiki við færslu of- eða vantekinna tekna milli ára við uppgjör tekjumarka, innkaup á kerfisþjónustu, yfirsýn og eftirlit með varaafli, aukið gegnsæi og bætt upplýsingagjöf og efling á raforkueftirliti Orkustofnunar.

Frestur til að senda inn umsagnir við ofangreind drög að frumvarpi, reglugerð og aðgerðaráætlun er til 17. febrúar 2021.