Samanburður á orkukostnaði heimila árið 2022

Líkt og undanfarin ár, hefur Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni, á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli. Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350m³. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu en 14.200 kWst með varmadælu.

Nú er komin út skýrsla um orkukostnað heimila m.v. gjaldskrár 1. september 2022. Alls eru 92 byggðakjarnar í greiningunni og ná tölur fyrir þá aftur til ársins 2014. Samhliða skýrslunni kemur út mælaborð þar sem hægt er að skoða orkukostnað í byggðakjörnum á Íslandskorti, skoða raforku- og húshitunarkostnað sér og bæta við útreikningi fyrir varmadælu fyrir staði með beina rafhitun.

Raforka

Lægsta mögulega verð fyrir viðmiðunareignina, með flutnings- og dreifingarkostnaði, fæst hjá Veitum á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, um 81 þ.kr. Hæsta gjald í byggðakjörnum sem eru skilgreindir sem þéttbýli er um 98 þ.kr. hjá Orkubúi Vestfjarða en í dreifbýli eru raforkuverð hærri, eða um 114-115 þ.kr. á ári fyrir viðmiðunareign. Raforkuverð hefur verið töluvert hærra í dreifbýli en í þéttbýli síðustu ár, en árið 2021 minnkaði bilið þar á milli þó nokkuð. Lægsta mögulega raforkuverð heimila í dreifbýli er nú um 39% hærra en lægsta mögulega verð í þéttbýli.

Húshitun

Þegar kemur að húshitunarkostnaði er munurinn á milli svæða mun meiri en á raforkuverði. Lægsti mögulegi kostnaður þar sem húshitun er dýrust er um þrefalt hærri en þar sem hún er ódýrust. Húshitunarkostnaður hefur undanfarin ár verið hæstur á stöðum þar sem þarf að notast við beina rafhitun en verð fyrir húshitun með rafmagni hefur þó lækkað talsvert síðustu ár, m.a. vegna niðurgreiðslna á dreifi- og flutningskostnaði og aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði. Sú þróun hefur gert það að verkum að lægsti mögulegi kostnaður fyrir beina rafhitun er nú orðinn lægri en þar sem eru kyntar hitaveitur eða dýrar hitaveitur.

Lægsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign er á Flúðum um 70 þ.kr. og þar næst í Brautarholti á Skeiðum og á Seltjarnarnesi um 75 þ.kr. Hæsti húshitunarkostnaðurinn er í Grímsey um 231 þ.kr., þar sem er olíukynding. Þar fyrir utan er húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign hæstur á stöðum þar sem notast er við kynta hitaveitu, þ.e.a.s. á Ísafirði, í Bolungarvík, á Seyðisfirði, Patreksfirði, Suðureyri og Flateyri eða um 209 þ.kr. Þó eru dæmi um að húshitunarkostnaður sé álíka hár þar sem hefðbundnar hitaveitur eru, svo sem á Höfn og í Nesjahverfi en þar er ný hitaveita, á Grenivík og Kópaskeri.

Heildarorkukostnaður

Heildarorkukostnaður, þ.e.a.s. raforku- og húshitunarkostnaður viðmiðunareignar, er hæstur í Grímsey 354 þ.kr. þar sem rafmagn er framleitt með díselrafstöð og húsin kynt með olíu. Þar fyrir utan er heildarkostnaður hæstur í Nesjahverfi í Hornafirði 321 þ.kr. Á Ísafirði, Patreksfirði, Suðureyri, Flateyri og í Bolungarvík er algengast að hús séu tengd kyntum hitaveitum og þar er nú hæsti heildarorkukostnaður í skilgreindu þéttbýli eða 306 þ.kr. Lægsti heildarorkukostnaður landsins er á Seltjarnarnesi 157 þ.kr. en þar næst á Flúðum 161 þ.kr. og í Mosfellsbæ og Laugarási 169 þ.kr.

Heildarorkukostnaður viðmiðunareignar 2022