Ný stjórn tekin við

Á ársfundi SSKS, sem haldinn var föstudaginn 13. október sl. var ný stjórn samtakanna kjörin. Í henni eiga sæti:

  • Björn Ingimarsson, Múlaþingi
  • Íris Róbertsdóttir, Vestmannaeyjum og
  • Jón Páll Hreinsson, Bolungarvík.

Í varastjórn sitja:

  • Björg Ágústsdóttir, Grundarfjarðarbæ
  • Eydís Indriðadóttir, Rangárþingi ytra og
  • Jón Hrói Finnsson, Þingeyjarsveit.

Á fundinum fór fram mjög góð umræða um stöðu samtakanna og hvar best væri fyrir þau að sækja fram. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hafa á síðustu misserum unnið ötullega að því að ræða við haghafa um framtíð skerðanlegrar orku til húshitunar. Kvaðst Kristinn vera sannfærður um að brýnasta verkefni SSKS sé að búa til taxta sem snúinn er að samtökunum í samvinnu við Landsvirkjun eða aðra orkusala. Ekki þá á skerðanlegri orku heldur varanlegri orku, þannig að ekki komi til þess að loka þurfi fyrir rafmagn á stofnunum eða í fyrirtækjum á köldum svæðum.

Kristinn sagði að t.d. væri grunnskólinn að kaupa afgangsorku af Landsvirkjun til að kynda skólann, það sama á við fiskþurrkun og fleiri fyrirtæki. Sl. vetur var lokað skyndilega fyrir afgangsorkuna og þessi fyrirtæki og stofnanir sátu uppi með gríðarlega mikinn orkureikning vegna þess að þau þurftu að notast við olíu til kyndingar. Einnig varðar þetta neytendavernd gagnvart orkusölunum. Kristinn ítrekaði að leiðangur þeirra Írisar hafi ekki verið bundinn við þeirra sveitarfélög heldur öll sveitarfélög sem eru innan vébanda SSKS.

Fundargerð ársfundar 2022.