Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest að fjarvarmaveita fyrir Grundarfjörð, sem styðst við glatvarma, uppfylli skilyrði laga um styrk sem miðast við áætlaðar 16 ára niðurgreiðslur. Er hér um tímamót að ræða m.t.t. hitaveituvæðingar á köldum svæðum.
Veitur og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hafa um skeið skoðað hvort mögulegt sé að hitaveituvæða Grundarfjarðarbæ með fjarvarmaveitu. Samstarfið, sem hófst í byrjun árs 2021, felst í forhönnun og fýsileikakönnun á hitaveituvæðingu bæjarins með varmadælum þar sem varminn yrði sóttur bæði úr umhverfinu og í glatvarma frá fyrirtækjum á Grundarfirði, sem er nýjung á Íslandi en vel þekkt í hringrásarhagkerfum erlendis.
Grundarfjörður er staðsettur á skilgreindu köldu svæði, þ.e. þar sem íbúar og atvinnulíf hafa ekki aðgang að jarðhita og kynda því hús sín með raforku og olíu. Slík rafhitun á íbúðarhúsnæði er að hluta niðurgreidd af ríkinu þar sem hún er mun dýrari en húshitun með jarðhita. Ríkið styrkir einnig fjárfestingar við hitaveituvæðingu á köldum svæðum með eingreiðslu sem að jafnaði miðast við 12 ára áætlaðar niðurgreiðslur á rafmagni eða olíu til húshitunar á veitusvæðinu. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hins vegar staðfest að fjarvarmaveita fyrir Grundarfjörð uppfylli skilyrði laga um styrk sem miðast við áætlaðar 16 ára niðurgreiðslur. Ákvörðunin styður vel við framgang þessa verkefnis og undirstrikar mikilvægi þess sem liðar í að skapa öflugt hringrásarhagkerfi á Íslandi. Áformin eru í samræmi við áherslur orkustefnu um fullnýtingu orkuauðlinda, orkuöryggi, orkuskipti og þjóðhagslega hagkvæmni hitaveituvæðingar á köldum svæðum.
Fýsileikakönnunin felur í sér að áætla stofnkostnað hitaveitunnar, rekstrarkostnað og að auki kortleggja varmauppsprettur sem eru tiltækar í og við Grundarfjörð. Tölvuvædd varma-og straumfræðilíkön hafa verið smíðuð með aðstoð norskra sérfræðinga. Markmiðið með þeim er að meta varmaburð frá jarðlögum í kringum Grundarfjörð. Með niðurstöðum þessara athugana verður hægt að meta hvernig verðskrá fyrir slíkar fjarvarmaveitur á köldum svæðum gæti litið út og hvort bygging og rekstur þeirra geti verið fýsilegur kostur hér á landi.