Reyna að útvega raforku til íbúa á köldum svæðum

Frétt af vef ruv.is 20.01.2022

Umhverfis- og auðlindaráðherra segir mikilvægt að vernda heimili og lítil fyrirtæki og tryggja að þau geti tekið þátt í orkuskiptum. Stjórnvöld reyna nú að koma í veg fyrir að samfélög á köldum svæðum þurfi að grípa til olíukyndingar vegna skorts á raforku.  

Orkustofnun og umhverfis- og auðlindaráðuneytið sendu í vikunni bréf til stóru orkufyrirtækjanna og óskuðu eftir því að þau útveguðu samfélögum á köldum svæðum rafmagn svo þau þurfi ekki að grípa til varafls með olíubruna.

Þurfa rafmagn til húshitunar

Samfélög á köldum svæðum kaupa innan við tvö prósent af öllu uppsettu afli í landinu. Þar sem þau búa ekki við jarðhita eru húsin þar hituð með rafmagni. Þessi samfélög hafa flest gert samninga um raforkukaup sem kveða á um að skerða megi orkuna þegar illa árar. Slíkir samningar eru töluvert ódýrari en samningar um forgang við raforkuafhendingu.

Kynding með olíubruna stríði gegn loftslagsmarkmiðum

Landsvirkjun hefur tilkynnt að viðbúið sé að skerða þurfi rafmagn til kaupenda með skerðanlega samninga. Orkumálastjóri segir í samtali við fréttastofu að það blasi við að íbúar á köldum svæðum geti lent í tímabundnum skerðingum þannig að þeir þurfi að grípa til olíukyndingar sem hefði skaðleg áhrif á loftslag og stríddi gegn markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. 

„Þetta eru ítrustu varúðarráðstafanir. Við tökum það mjög alvarlega að það sé möguleiki á því að svona geti komið upp,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Mikilvægt sé að íbúar á köldum svæðum hafi trygga raforku. 

„En síðan er hitt að ég hef sömuleiðis, og það var eitt af því fyrsta sem ég gerði, var að setja af stað vinnu með það að markmiði að vernda sérstaklega heimilin og lítil fyrirtæki í landinu,“ segir Guðlaugur Þór.

Eftirspurn eftir grænni orku aukist sífellt. 

„Ef við myndum bara selja hana til hæstbjóðanda þá er ansi hætt við því að heimilin og lítil fyrirtæki í landinu geti ekki notið orkuskipta og það er nokkuð sem við viljum ekki sjá,“ segir Guðlaugur Þór.

Þess vegna hafi verið settur á laggirnar raforkuhópur undir forystu orkumálastjóra. Einnig er í undirbúningi að gera svonefnda grænbók þar sem teiknuð er upp staðan í orkumálum og helstu áskoranir.