„Við sem höfum verið að leita að heitu vatni í mörg ár og áratugum saman finnst þessi árangur það góður að fyllst ástæða sé til að fylgja þessu eftir,“segir Magnús Ólafsson, aðstoðardeildarstjóri jarðfræði og umhverfismál hjá Ísor, en góður árangur varð af borun á fyrstu djúpu rannsóknarholunni í jarðhitasvæðið við Hoffell í Hornafirði.
„Fyrsta mat á holunni bendir til að hún sé að gefa um 20- 25 L/s af rúmlega 70°C heitu vatni,“ segir Magnús. Hann telur fyllst ástæðu til að halda áfram með þetta verkefni, en það sé í höndum RARIK að meta næstu skref.
RARIK rekur fjarvarmaveitu á Hornafirði sem nær til um 2/3 hluta byggðarinnar, en um þriðjungur hitar hús sín með rafmagni. Fjarvarmaveitan felur í sér að RARK hitar vatnið með rafmagni áður en því er dreift til notenda. Tiltölulega hagstætt er því að leggja hitaveitu í húsin ef nægt vatn finnst með borun.
Magnús segir að þessi hola dugi ekki til að hita upp öll hús á Höfn og í þéttbýlinu á Nesjum og því þurfi að bora aðra holu til að fá meira vatn. Næsta skref sé hins vegar að rannsaka svæðið betur. Verið sé að gera holusjármælingar til að staðsetja betur sprungur og stefnur þeirra. Með þessum mælingum sé hægt að afla betri upplýsinga um innviði jarðhitakerfisins. Hann segist reikna með að sett verði djúpdæla í borholuna til að dæluprófa hana til lengri tíma. Þá fáist betra mat á jarðhitakerfið.
Jarðhitasvæðið við Hoffell í Hornafirði er í um 15 km fjarlægð frá Höfn í Hornafirði.
Velheppnuð hola
Borun við Hoffell í Hornafirði hófst í byrjun nóvember á síðastliðnu ári og lauk um miðjan febrúar. Holan er 1608 m djúp og lausleg afkastamæling á henni fór fram 19. til 20. febrúar. Frumniðurstöður sýna að holan er vel heppnuð. Sjálfrennsli frá henni er nú rúmir 7 L/s og afkastamælingin sýnir að úr henni má dæla um 25 L/s af rúmlega 70°C heitu vatni með hóflegum niðurdrætti vatnsborðs. Vegna þess að enn gætir áhrifa frá köldu skolvatni í holunni er talið líklegt að hiti vatnsins á holutoppi muni hækka þegar frá líður, t.d. í langtíma dæluprófi sem er fyrirhugað.
Holan var boruð af jarðbornum Nasa frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða fyrir RARIK í þeim tilgangi að kanna möguleika á hitaveitu fyrir Höfn og nágrenni en Höfn er einn af örfáum kaupstöðum landsins sem ekki nýtur hitaveitu með jarðhita.
20 ára leit að jarðhita fyrir Hornafjörð
Jarðhitaleit fyrir Hornafjörð hefur staðið yfir með hléum í rúm 20 ár. Lengst af fóru rannsóknirnar fram á vegum Jarðfræðistofunnar Stapa ehf. Síðastliðið haust tóku Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) að sér sértækar mælingar í borholum við Hoffell í þeim tilgangi að kortleggja með nákvæmni sprungur í holunum og stefnu þeirra. Beitt var svokallaðri holusjá (televiewer) sem mælir stefnu og halla sprungna sem borholan sker og auk þess sprungna og brota sem myndast við borun og veita upplýsingar um stefnu virks spennusviðs umhverfis holuna á þeim tíma sem hún var boruð. Mælingar síðastliðið haust staðfestu að sprungukerfi jarðhitakerfisins er flókið og í ljós kom að halli vatnsleiðandi sprungna var frábrugðinn því sem talið hafði verið út frá fyrri rannsóknum.
Á grundvelli nákvæmrar úrvinnslu þessara gagna, ásamt gögnum um hitastigul og jarðfræði svæðisins, var hola HF-1 staðsett. Í flestum tilvikum hér á landi hafa tilraunavinnsluholur verið staðsettar á grundvelli hitastigulsmælinga og hefur þá verið borað beint ofan í hitahámarkið eða mjög nærri því. Við staðsetningu holu HF-1 var vikið frá þeirri almennu reglu, aðallega á grundvelli holusjármælinganna og er árangur prýðisgóður.
Af fréttavefnum mbl.is.