Ráðstefna um orkumál

Sveitarfélagið Hornafjörður efnir til ráðstefnu um orkumál 28. febrúar á Hótel Höfn í Hornafirði.

Á ráðstefnunni verða mörg verkefni er lúta að nýsköpun í orkumálum í brennidepli.  Fyrirlesarar eru ýmist frumkvöðlar á sviði nýrrar tækni við orkuöflun, sérfræðingar á sviði orkumála eða í fararbroddi opinberra stofnana á sviði orku- og loftslagsmála.

Orkumál eru stór hluti af daglegu lífi fólks.  Á ráðstefnunni verður skyggnst inn í framtíðina og fjallað um hugsanlega nýja orkugjafa á Íslandi, bætta orkunýtingu með sátt við umhverfið að leiðarljósi. Efni ráðstefnunnar á sérstaklega erindi við íbúa á köldum svæðum þar sem ný tækni og breytingar í orkumálum geta dregið úr orkukostnaði heimila og fyrirtækja.

Kynntar verða meðal annars nýjungar á sviði orkuöflunar, niðurstöður tilrauna með ræktun olíufræja, áætlun um uppbyggingu gagnavers og yfirstandandi jarðhitaleit RARIK og tilraunir með varmadælur.  Jafnframt verður fjallað um aðgerðir í loftslagsmálum og starfsemi landbúnaðarins í orkumálum.

Auðvelt verður að fá viðtöl við fyrirlesara og hægt að fá myndrænt sjónarhorn með einstaka fyrirlesurum.

Ókeypis inn á ráðstefnuna, beint flug með Erni frá RVK.

Ráðstefna um orkumál 2013.