Nýir raforkumælar sýna mun meiri notkun á rafmagni

Vefurinn www.bb.is birti á dögunum áhugaverða frétt þar sem spjallað er við við Guðmund Halldórsson sauðfjárbónda að Svarthamri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp um raforkuverð. Við leyfum okkur að birta fréttina óstytta.

„Rafmagnið er dýrt hérna úti á landi,“ segir Guðmundur Halldórsson sauðfjárbóndi að Svarthamri í Álftafirði við Ísafjarðadjúp. Raforkuverð hefur hækkað umtalsvert á undanförnum árum en ofan á það leggst óútskýranleg hækkun á notkun rafmagns hjá Guðmundi. „Hér er ekki breytt eitt né neitt og maður reynir frekar að draga úr notkuninni en hitt. Ég veit ekki hvað er í gangi hérna,“ segir Guðmundur um aukna rafmagnsnotkun á Svarthamri samkvæmt álestri mæla Orkubús Vestfjarða. Reksturinn á búinu á Svarthamri hefur verið með óbreyttu sniði í mörg ár og engin rökrétt útskýring á aukinni notkun rafmagnsins.

Skipt var um mæla fyrir nokkrum árum og eftir það fór rafmagnsnotkunin hækkandi. „Þegar skipt var um þessa mæla kvörtuðu allir í Súðavík yfir því að rafmagnsreikningurinn hækkaði. En það sagði enginn neitt eða gerði neitt í málinu,“ segir Guðmundur. Hann segist ekki vita hvort það sé mælunum að kenna en það eru margir sem kvarta yfir notkuninni. Tímasetningin á hækkuninni virðist samt passa við nýju mælana. „Þetta gjörbreyttist um leið og skipt var um mæla. Það var eins og sprautað hafi verið vítamíni í mælana þeir snerust mun hraðar en áður. Ég veit um marga hér í kringum mig sem höfðu sömu sögu að segja, m.a. úti í Súðavík,“ segir Guðmundur Halldórsson um nýju mælana.

Á síðustu þremur árum hefur notkunin á Svarthamri aukist um tæplega 75%. Ársnotkunin á búinu við álestur árið 2010 var 51.568 kWst. Við álestur árið 2011 var ársnotkunin skráð 64.920 kWst. Nú í október sýndi mælirinn að ársnotkunin væri komin upp í 90.238 kWst. Ríkið niðurgreiðir ekki rafmagnsnotkun umfram 40.000 kWst svo eftir það þarf að borga fullt gjald. Rafmagnsreikningur Guðmundar hækkaði á þessum þremur árum úr 419.582 krónum í 973.399 krónur sem er 130% hækkun. Enda segir Guðmundur: „Rafmagnið er dýrt hérna úti á landi.“