Köld svæði fara halloka

Köld svæði fara halloka

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga birti Þóroddur Bjarnason stjórnarformaður Byggðastofnunar fremur nöturlega staðreynd.  Þrjú svæði á landinu hafa um langt árabil glímt við stöðuga fólksfækkun. Kreppan þar kom ekki 2008 heldur hafa breytingar á atvinnuháttum og samfélagsþróun leitt þetta af sér.  Svæðin sem um er rætt eru Vestfirðir, hluti Norðaustulands og dreifðar byggðir Suðausturlands.  Þau eiga það sameiginlegt að jarðhita er ekki að finna og húshitunarkostnaður því íþyngjandi fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.

Jöfnum húshitunarkostnað !

Loforð um jöfnun húshitunakostnaðar var gefið á fundi ríkisstjórnar á Vestförðum síðast liðið vor.  Önnur verkefni sem ákveðið var að ráðast í á þeim fundi hafa hins vegar farið framar í forgangsröðunina eins og  útboð á strandsiglingum.  Það er mikilvægt mál en til að taka af allan vafa að þá er jöfnun húshitunarkostnaðar eitt brýnasta hagsmunamál íbúa á köldum svæðum.  Aðgerða í þeim efnum er beðið með óþreyju ekki síst vegna þess að bilið milli heitra og kaldra svæða hefur aukist á síðustu árum.  Auk þess vofir enn frekari hækkun yfir.

Skýrar tilllögur

Í desember síðast liðnum skilaði starfshópur á vegum iðnaðaráðherra inn tillögum um hvernig jafna mætti kostnaði við húshitun.  Hópurinn skildi ekki eftir óskrifað blað um hvernig fjármagna ætti niðurgreiðslurnar. Það átti að gera með fjármagnstilfærslum innan orkubúskapsins sjálfs.  Þegar þessar skýru tillögur lágu fyrir vöknuðu vonir um að nú yrði tafarlaust ráðist í smíði frumvarps um  jöfnun húshitunarkostnaðar.  Ennþá er beðið – nærri ári eftir að tillögurnar voru settar fram.  Svör sem Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, gaf við fyrirspurn um þetta efni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga gefa vonir um að úr þessu verði bætt.  Stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, mun áfram berjast fyrir að loforð verða efnd – íbúum á þessum svæðum til hagsbóta.

Hjalti Þór Vignisson, Kristinn Jónasson og Ómar Már Jónsson eru höfundar þessarar greinar og birtist hún í Morgunblaðinu 6. október 2012.