Stjórn SSKS endurkjörin

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum var endurkjörin á ársfundi samtakanna sem fram fór í ráðstefnuhúsinu Hörpu í Reykjavík fyrr í dag. Á fundinum fór Kristinn Jónasson í nokkrum orðum yfir störf stjórnar á síðasta starfsári en meginverkefni stjórnarinnar hefur verið að veita umsögn um frumvarp til laga um niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar, skipting á fjárlagalið umrædds frumvarps og útfærsla á því. Fundir stjórnar á árinu hafa ekki verið margir og hafa alltaf farið fram í gegnum síma.

Kristinn lýsti þeirri skoðun sinni að breyta þyrfti fyrirkomulagi stjórnarsetu þannig að hver stjórnarmaður væri kosinn til þriggja ára í senn en hver maður mætti þó aðeins sitja í þrjú ár í einu. Yrði fyrirkomulagið þannig að skipt yrði um einn stjórnarmann á ári. Þannig myndi nást meiri og betri dreifing á þekkingu þeirra sem aðild eiga að samtökunum.

Á fundinum var ákveðið að hækka árgjöld aðildarsveitarfélaga úr 10.000 krónum á ári í 30.000 krónur. Með því væri hægt að vinna enn betur að hagsmunum samtakanna og auka fræðslu til aðildarfélaga.

Líflegar umræður um framtíðarskipan SSKS fóru fram á fundinum. Voru fundarmenn almennt sammála því að leggja ætti áherslu á niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar frekar en á varmadælavæðingu, þó með þeirri undantekningu að opinberar byggingar færu meira út í slíka valkosti.

Að lokum var stjórn samtakanna hvött til þess að auka samskiptin við aðildarsveitarfélögin m.a. með því að senda út fundarboð stjórnarinnar sem og upplýsingar um framgang viðræðna við stjórnvöld vegna niðurgreiðslna.