Ótryggð raforka hækkar mikið

Ótryggð raforka mun hækka gríðarmikið, líklega um 80-100%, hjá flestum notendum að sögn Orkuvaktarinnar. Öllum samningum um ótryggða raforku var sagt upp frá og með áramótum af hálfu orkusala vegna fyrirhugaðra breytinga á skilmálum Landsvirkjunar.

Að sögn Orkuvaktarinnar munu skilmálar einnig breytast og verður notendum gert að skila inn áætlunum á einhverju formi sem standa verður við. „Skeiki áætlun um meira en sem nemur tilteknum vikmörkum, er notanda gert að greiða álag.

Ef notandi getur af einhverjum ástæðum ekki nýtt þá orku sem hann áætlaði, er hann samt sem áður skuldbundinn til að greiða fyrir hana. Það þarf því lítið útaf að bregða til að hækkunin verði í raun enn meiri,“ segir í frétt Orkuvaktarinnar.

„Þetta eru talsvert óvænt tíðindi og skilmálar af þessu tagi eru algjör nýmæli á almennum markaði eftir því sem Orkuvaktin kemst næst. Orkusölum hefur verið gert að skila inn ítarlegum áætlunum um orkusölu frá innleiðingu samkeppni á raforkumarkaði og er þessi aðferðarfræði væntanlega þaðan komin.

Þrátt fyrir þessar hækkanir er ótryggða orkan enn talsvert hagstæðari en forgangsorka í raforku og einnig talsvert ódýrari en notkun olíu.“

Af mbl.is 1. desember 2011.