Skaftárhreppur fær styrk til kaupa á varmadælu

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tilkynnti í dag um þá ákvörðun að veita Skaftárhrepp styrk vegna kaupa sveitarfélagsins á varmadælu til að hita upp Kirkjubæjarskóla,  íþróttahús og sundlaug sveitarfélagsins. Styrkurinn er veittur í samræmi við markmið um endurnýjanlega orku og orkunýtni í skýrslu Alþingis um Græna hagkerfið.

Ráðherra er á ferðinni um Suðurkjördæmi þessa dagana en nú stendur yfir kjördæmavika Alþingis. Fundaði hann í dag á Kirkjubæjarklaustri ásamt þingmönnum Suðurkjördæmis og notaði tækifærið til að afhenda sveitarstjórn Skaftárhrepps staðfestingu á styrkveitingunni.

Skaftárhreppur er á svokölluð köldu svæði, þar sem ekki hefur fundist heitt vatn sem nýta má til húshitunar. Voru skólinn og íþróttamannvirki á árum áður hituð upp með svartolíubrennara og síðar með varma frá sorpbrennslustöð sveitarfélagsins. Eftir að sorpbrennslustöðinni var lokað í árslok 2012 hafa mannvirkin verið kynt með rafmagni og var sundlauginni lokað um tíma.

Ljóst er að með notkun varmadælunnar dregur sveitarfélagið verulega úr umhverfisáhrifum vegna upphitunar þeirra bygginga sem um ræðir auk þess sem hitunarkostnaður minnkar til muna. Nú er því hvorki notast við varma frá sorpi- eða svartolíu og með varmadælunni dregur verulega  úr rafmagnsnotkun til upphitunar. Þá er sorp flokkað í sveitarfélaginu eins og kostur er í því skyni að draga úr akstri og urðun úrgangs.

Þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélag setur upp varmadælu af þessari stærðargráðu og má ætla að önnur sveitarfélög á köldum svæðum geti nýtt sér reynsluna af notkun hennar. Þetta nýsköpunarverkefni fellur því vel að markmiðum um betri orkunýtingu í ályktun Alþingis um Græna hagkerfið.

Styrkurinn nemur átta milljónum króna en gert er ráð fyrir að heildarkostnaður Skaftárhrepps vegna kaupa og uppsetningu dælunnar sé um 16 milljónir króna.

Varmadælustyrkur