Á fundi stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) sem haldinn var þann 4. desember s.l var m.a til umræðu boðaðar hækkanir Landsnets á raforkudreifingu. Eftirfarandi bókun var samþykkt:
Stjórn SSNV vestra mótmælir harðlega boðuðum gjaldskrárhækkunum Landsnets á dreifingu rafmagns. Að mati stjórnarinnar mun hækkunin fyrst og fremst bitna á íbúum á köldum svæðum sem kynda þurfa húsnæði með raforku. Stjórnin bendir á að Landsnets er hlutafélag í eigu ríkisins og starfar á einokunarmarkaði. Á síðasta ári nam hagnaður fyrirtækisins 840 milljónum króna, og hagnaður fyrstu sex mánuði ársins var um 236 milljónum. Eigið fé félagsins nam um 12,7 milljörðum króna í lok júní. Ljóst er á þessum tölum að fyrirtækið stendur sterkt og vandséð hversvegna það þarf á verðhækkunum að halda á þessum tímapunkti . Stjórnin bendir einnig á mikilvægi þess að komið verði á fót sérstökum jöfnunarsjóði svo íbúum á köldum svæðum verði hægara um vik að bregðast við verðhækkunum. Hugmyndir og útfærslur koma fram í skýrslu sem unnin var fyrir Iðnaðarráðuneytið árið 2011 og fjallaði um breytingar á niðurgreiðslu til húshitunar.