Mun dýrara að kynda með innfluttri olíu en innlendri raforku í sveitum landsins

Hér eru RÉTTAR upplýsingar um hitunarkostnað

Vegna fréttar í 5. tölublaði Bændablaðsins sem birtist 15. mars sl. vill Orkustofnun koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri. Gömul og þrálát villa læddist inn í myndina um niðurgreiðslu hitunarkostnaðar sem sýnd var á ráðunautafundi í Bændahöllinni í síðustu viku. Hið rétta er að olíuhitun er niðurgreidd þannig að kostnaður notanda með olíukyndingu er til jafns við notanda raforku í dreifbýli. Olíukynding er vissulega niðurgreidd meira í krónum talið, en það kemur til vegna þess að olíukyndingin er mun dýrari en rafhitunin. Um leið og réttum upplýsingum er komið á framfæri er jafnframt beðist velvirðingar á mistökunum.

Orkustofnun tekur saman tvisvar á ári orkuverð til húshitunar á Íslandi. Um 90% íbúa landsins búa við jarðvarmaveitur þar sem orkuverð er á bilinu 2 kr./kWh upp í 12,3 kr./kWh eftir hitunaraðferð, þéttbýli eða dreifbýli. Aðeins íbúar í Grímsey, Flatey og örfáir afskekktir bæir sem ekki eru tengdir dreifiveitum fá niðurgreiðslu á olíuhitun sem kostar nú, óniðurgreidd, rúmar 18 kr./kWh og hækkar jafn ört og annað olíuverð.

Ríkissjóður niðurgreiðir raforku til húshitunar hjá notendum sem hafa ekki aðgang að hitaveitu og eru niðurgreiðslurnar mismunandi eftir dreifiveitusvæðum og hvort er um að ræða þéttbýli eða dreifbýli. Niðurgreiðslan er hæst í krónum talið hjá þeim sem eru með olíuhitun, enda er langdýrast að kynda með olíu. Í reglum um niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði er ákvæði um að niðurgreiða skuli olíuhitun til jafns við kostnað notenda í dreifbýli með niðurgreidda rafhitun. Þetta þýðir að ríkissjóður þarf að niðurgreiða olíuhitun úr 18,2 kr./kWh niður í meðalverð rafhitunar í dreifbýli, um 7,7 kr./kWh eða um 10,5 kr./kWh á meðan niðurgreiðslan á rafhitun í dreifbýli er um 4,6 kr./kWh.

Það er því jafnkostnaðarsamt fyrir notanda í dreifbýli að hita með olíukyndingu eða rafhitun, en umtalsvert dýrara fyrir ríkissjóð að niðurgreiða olíukyndinguna. Olíukyndingin er því dýrari fyrir alla. Aðeins þeir sem enga möguleika hafa á því að tengjast dreifikerfi dreifiveitna fá niðurgreiðslu. Það fær enginn notandi með olíuhitun, sem hefur möguleika á því að tengjast raforkukerfinu, niðurgreiðslu af olíukyndingu vegna þess að það er margfalt hagkvæmara að hita með rafmagni en olíu.

Í meðfylgjandi mynd má sjá orkuverð til húshitunar eins og það var 1. janúar 2012. Heildarverð olíukyndingar, sem var rétt á myndinni frá 2011, hefur aukist um réttar 3 kr./kWh síðan á haustmánuðum 2011 enda hefur olíuverð hækkað ört undanfarið. Niðurgreiðslan, sem var röng á myndinni frá 2011, er þannig að verð til notanda er sambærilegt við notanda fær niðurgreidda rafhitun í dreifbýli, eða um 7,7 kr./kWh.

Hér eru rangar upplýsingar um hitunarkostnað
Hér eru rangar upplýsingar um hitunarkostnað

 

Hér eru RÉTTAR upplýsingar um hitunarkostnað
Hér eru RÉTTAR upplýsingar um hitunarkostnað

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frá SSKS: Sérstök athygli er vakin á því að frétt hér á síðunni um hitun hýbíla með raforku frá í janúar er byggð á röngum forsendum og á sér því ekki stoð í raunveruleikanum.