Varmadælur – kostur fyrir sveitarfélög

Samantekt Guðmundar Inga Ingasonar, oddvita Skaftárhrepps í mars 2012.

Guðmundur Ingi Ingason, oddviti Skaftárhrepps
Guðmundur Ingi Ingason, oddviti Skaftárhrepps

Sveitarfélagið Skaftárhreppur er á köldu svæði.  Þrátt fyrir þó nokkra leit eftir heitu vatni og boranir víðsvegar í sveitarfélaginu hefur ekki fundist heitt vatn.  Þegar ég hóf að hafa afskipti af sveitarstjórnarmálum um vorið 2010 hafði ég samband við Orkustofnun og kannaði hvað hafði verið gert á svæðinu.  Eftir viðtöl við aðila sem höfðu verið með í þessari leit að heitu vatni á svæðinu taldi ég að leit að heitu vatni væri ekki góður kostur á þeim tímum, þar sem fé var ekki veitt til slíkra hluta vegna ástandsins í þjóðfélaginu.  Einnig er alltaf stór möguleiki að ekkert heitt vatn finnist við slíka leit.

Ég sótti fund hjá Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum og fannst mér áhugavert að kanna með varmadælur sem möguleika á sparnaði í rafmagnsnotkun fyrir Skaftárhrepp.  Fór svo að við könnuðum með að fá varmadælur í félagsheimili hreppsins og fengum við aðila til að gera útreikninga á hvað sparaðist við að setja upp slíkar varmadælur sem eru loft í loft.  Leituðum við tilboða og að lokinni könnun á hvað hentaði fyrir okkur var ráðist í að panta varmadælur sem gætu annað okkar þörf.  Kom í ljós að margir eru með slíkar dælur og enduðum við með að panta og fá dælur sem  eru framleiddar í Japan og eru af Fujitsu gerð.  Þær eru með afísingarbúnaði og taka til sín mest 2 kW og eru að skila 9,1 kW.  Orkustofnun veitir styrk  (eingreiðslu) sem nemur niðurgreiðslu ragmagnsins til átta ára.   Enn er þessi niðurgreiðsla til félagsheimila og sóttum við um styrk til verkefnisins frá Orkustofnun.  Í Félagsheimilið Kirkjuhvol sem er á Kirkjubæjarklaustri voru keyptar tvær slíkar varmadælur og var verðið með uppsetningu.  Ábyrgð var sögð vera til átta ára.  Reiknaður sparnaður vegna þessarar framkvæmdar í Kirkjuhvoli var sagður vera 600 þúsund á ári en fyrir höfðum við kynt með olíu að hluta og svo rafmagni.

Í félagsheimilið Tungusel sem er minna dugði ein varmadæla og annar hún húsinu mjög vel en fyrir var þar rafmagnshitun.   Snýst þetta um að lækka ofnanna niður í hita og tekur varmadælan við.  Ofnanir eru hafði áfram og stilltir á t.d. 14 gráður c.  til að taka við, slái varmadælurnar út.

Í félagsheimilið Efri – Ey sem er minnst dugði einnig ein dæla.
Þegar styrkir komu á móti varmadælukaupunum var það mjög lág upphæð sem við þurftum að bæta við svo þetta yrði að möguleika.

Ég sjálfur keypti mér varmadælu sem ég lét setja upp á heimili mínu og var það gert á sama tíma og í félagsheimilin eða í byrjun nóvember 2011.  Varmadælan heima hjá mér annar öllu húsinu með því  að hafa allar hurðir  opnar þannig að loftið leiki um allt húsið.  Einnig er staðsetning dælunar mjög mikilvæg til að hún skili hita í allt húsið.  Allir ofnar eru stilltir á 14 gráður c. og þeir fara ekkert í gang.  Lesið var af  rafmagni hjá mér í byrjun janúar og var inneign upp á tæpar 20 þúsund krónur en dælurnar virðast hafa sparað þetta á tveimur mánuðum.  Sótti ég um styrk frá Orkustofnun sem var veittur en það var niðurgreiðslan til átta ára sem ég fékk í eingreiðslu.  Sýnist mér að ávinningur af þessu komi í ljós eftir ársnotkun á varmadælunni og tel ég að þrátt fyrir að fá ekki niðurgreiðsluna nemi fjárhæðin það miklu minna svo þetta marg borgi sig.

Á Kirkjubæjarklaustri er sundlaug, íþróttamiðstöð og skóli sem notað hafa til kyndingar orku úr sorpbrennslu ásamt rafmagnstúbum og olíukötlum um áraraðir.  Nú er framtíð sorpbrennslunar óviss, en þetta var á sínum tíma eða fyrir ca. sjö árum síðan það besta sem völ var á.  Flokkuðum við sorpið í þrennt og höfum síðan þá lagt frekari áherslu að sorpið væri vel flokkað af íbúum en það er grundvallar atriði fyrir að mengun verði sem minnst.    Sorpbrennslan er að gefa okkur 120 til 200 kW ca.  orku til sundlaugarinnar og kyndingar á mannvirkjum sem áður er getið.  Á veturnar þarf samt að bæta við rafmagni sem nemur alls  þremur hitatúpum, samtals 270 kW.  Fari svo að sorpbrennslan sé ekki í gangi verður að kynda með olíu sem gefur þessi 120 kW í hennar stað.  Nú er svo komið að ég er að kanna hvort við gætum fengið varmadælu sem gæfi  400 til 500 kW loft í vatn og notaði ca. 120 kW af rafmagni að mestu.  Þessari tækni hefur fleygt fram og hefur þróast mikið.  Unnt er að fá gám sem er með varmadælunni tilbúinni til að tengja við ragmagn og síðan leiða inn í kjallara sundlaugarinnar þar sem hún tengdist inn á varmaskipta til að hita vatnið í sundlauginni og síðan fyrir íþróttamiðstöðina og skólann.    Á veturnar erum við að greiða ca. 900 þúsund krónur til hitunar á sundlauginni og á mannvirkjunum þ.e. íþróttamiðstöðinni og skólanum á mánuði.   Mín hugsun er að þessi upphæð ætti að lækka niður í 1/3 af kostnaðinum sem er í dag eða í ca. 200 til 300 þúsund krónur.   Á ársgrundvelli eru það 7,2 milljónir.

Ég ræddi þessar hugmyndir og kannanir sem ég hef þegar gert við Kristinn Jónasson formann Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum og hvatti hann mig til að skrifa línur um þetta.  Ég veit að fleiri sveitarfélög eru í okkar sporum og kannski eru einhverjir sem eru komnir lengra í þessum athugunum. Hvet ég þá að setja sig í samband við Kristinn og einnig er velkomið að senda mér línu vegna þessa.

Með góðri kveðju,

Guðmundur Ingi Ingason
oddviti Skaftárhrepps
oddviti@klaustur.is
s. 868-0465