Hitafundur á Seyðisfirði

RARIK segir rekstrarforsendur brostnar á Seyðisfirði fyrir miðlæga veitu til húshitunar og mælir með því að íbúar taki höndum saman um uppsetningu á varmadælum í íbúðarhúsnæði. Skiptar skoðanir eru á málinu. RARIK hélt nýlega opinn fund um lokun fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði.

Skýringar á núverandi stöðu mála eru nokkrar að sögn Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra RARIK. Samfara breytingum á orkumarkaði mun framboð á ótryggðri orku fara minnkandi, en að öllu óbreyttu hefur forgangsorkuverð 67% hækkun í för með sér fyrir kyndikostnað fjarvarmaveitunnar.

Ekki skipti síður máli að fjarvarmaveitan á Seyðisfirði standi nú frammi fyrir heildarendurnýjun veitukerfisins, sem talið er ónýtt sökum tæringar. Lítið sem ekkert fjárhagslegt svigrúm er þó til staðar, þar sem rekstur veitunnar er í járnum. Talið er að sú gagngera endurnýjun sem ráðast verður í kosti um 500 – 600 m.kr. Einnig benti forstjórinn á, að þar sem jarðhitaleit hafi ekki skilað þeim árangri sem vonast var til vegna Seyðisfjarðar, væri ekki talið forsvaranlegt að ráðast í svo kostnaðarsamar framkvæmdir. Þá kemur miðlæg varmadæla ekki til greina, nema lágvarmi finnist í nægu magni allt árið um kring.

Eru horfur fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði taldar það slæmar að stefnt er að lokun hennar í árslok 2019.
Á fundinum voru einnig voru kynntar tillögur sem RARIK hefur unnið með Orkustofnun að nýrri framtíðarsýn fyrir Seyðfirðinga í húshitunarmálum. Bein rafhitun með hitatúpum eða varmadælum í hverju húsi eru taldir hagkvæmustu valkostirnir í stöðunni og af þessum tveimur kostum er varmadæla talin hagstæðari, m.a. út frá rekstrarkostnaði og niðurgreiðslum frá ríki.

Viðskiptavinum fjarvarmaveitunnar hefur RARIK síðan boðið 500 – 700 þ.kr. framlag, allt eftir meðalnotkun síðustu 5 ára, vegna þess kostnaðar sem notendur verða fyrir. Metur RARIK það svo, að beinn kostnaður hvers notanda af uppsetningu varmadælu sé því um 300 – 400 þ.kr. og hefur þá verið tekið tillit til framlag RARIK ásamt einskiptisgreiðslu frá ríki vegna orkusparandi aðgerðar.

Einnig var það hagræði nefnt fyrir íbúa, að stofnað verði félag eða félög vegna varmadælukaupa. Margt gæti áunnist með því s.s. lægra innkaupverð, lægri kostnaður vegna iðnaðarmanna og skipt ábyrgð vegna framkvæmda.

Húsfyllir var á fundinum sem fór fram í bíósal félagsheimilisins Herðubreiðar á Seyðisfirði. Í tengslum við fundinn fór jafnframt fram varmadælukynning, sem helstu þjónustu- og söluaðilum bauðst aðild að, í aðalsal félagsheimilisins.

Fjarvarmaveitan var upphaflega sett á fót sem samstarfsverkefni RARIK og Seyðisfjarðarkaupstaðar árið 1981. Byggði RARIK kyndistöð og sveitarfélagið dreifikerfi, sem RARIK festi síðan kaup á árið 1992. Þessum viðskiptum fylgdi jafnframt einkaleyfi sem RARIK hefur haft í 25 ár eða allt þar til leyfið rann út í byrjun þessa árs.

Að framsögum loknum tóku við fyrirspurnir og umræður og er óhætt að segja að nokkur hiti hafi verið í fundarmönnum. Núverandi ástand á dreifikerfi fjarvarmaveitunnar var á meðal þess sem var gagnrýnt fyrir of lítið viðhald og endurnýjun tímas rás. Einnig kom fram eftirsjá af dreifikerfinu fyrir samfélagið, en án þess væri lokað fyrir miðlægar lausnir í húshitun á Seyðisfirði, s.s. í tengslum við jarðgögn undir Fjarðaheiði. Þá var spurt hvort fyrirtækinu væri stætt á því að segja upp viðskiptum við heilt sveitarfélag, svo að dæmi séu nefnd.

Í frétt á vef RARIK um fundinn kemur fram, að ljóst sé að halda þurfi annan íbúafund innan nokkurra mánaða til að far nánar yfir þá framtíðarsýn sem hentar Seyðfirðingum best í húshitun.