Umfjöllun um varmadælur í Lagnafréttum

Athygli er vakin á því að 1. tbl. 26. árgangs Lagnafrétta, sem gefið var út í maí sl. er helgað ráðstefnu um varmadælur sem haldin var í Lagnakerfamiðstöð Íslands 22. mars sl. Í blaðinu eru öll erindi sem flutt voru á ráðstefnunni auk þess sem glærur fyrirlesara fylgja með.

Meðal fyrirlesara var Oddur B. Björnsson verkfræðingur en erindi hans var um virkni varmadælu og fylgdu með eftirfarandi sjö hollráð varðandi hönnun varmadælukerfa:

  • Nýta aðgengilega varmauppsprettu með sem hæstan ársmeðalhita
  • Hanna varmadælukerfið í samræmi við aðstæður hverju sinni
  • Velja afköst varmadælu með sem lengstan nýtingartíma hámarksafls í huga
  • Nýta varmadæluna sem grunnafl
  • Viðhafa reglun varmadælukerfisins í takt við breytilega varmaþörf notanda
  • Nota lághitakerfi til upphitunar, s.s. gólfhitunarkerfi, lofthitakerfi, stóra ofna
  • Ekki hafa uppblöndun í hitakerfi húss

Þá flutti Gunnlaugur Jóhannesson pípulagningameistari um tengingu varmadælu við húskerfi og fjallaði um uppsetningu á varmadælum við hús á nokkrum stöðum s.s. björgunarsveitarhúsið á Rifi, þar sem varmagjafinn var sóttur í sjó en þar náðist 70% sparnaður. Vatn í vatn varmadælu í Þykkvabæ þar sem náðist 80% sparnaður og loft í vatn á Hólmavík þar sem náðist 65% sparnaður.

Að lokum má nefna erindi Benedikts Guðmundssonar byggingatæknifræðings hjá Orkustofnun þar sem hann fjallaði um hagkvæmni varmadæla. Í erindi sínu segir Benedikt m.a. að áhrif varmadælna sé margþætt:

Þær lækka kostnað við upphitun á köldum svæðum, þær minnka niðurgreiðsluþörf ríkissjóð, ásamt því að uppsetning og þjónusta á varmadælum skapa atvinnu, og raforkusparnaðinn má svo nýta í aðra atvinnuuppbyggingu.

Hægt er að nálgast Lagnafréttir á vef Lagnafélags Íslands sem fylgir hér að neðan en þegar þetta var skrifað var nýjasta tölublaðið ekki komið á vefinn.