Lagning hitaveitu frá Reykjum á Húnavöllum til Skagastrandar uppfyllti ekki kröfur RARIK um arðsemi. Ráðist var í verkefnið vegna þess að Skagstrendingar lögðu töluvert fjármagn í það. Oddviti sveitarstjórnar Skagastrandar segir að sveitarfélagið standi vel og vilji nýta fjármuni til að efla byggð.
Auk stofnæðar á að leggja dreifikerfi á Skagaströnd og byggja þrjár dælustöðvar. Kostnaðaráætlun er um 920 milljónir.
Viðræður um málið hófust af alvöru 2010 þegar ljóst var að RARIK þyrfti að gera endurbætur á pípu til Blönduóss.Viðbótarkostnaður vegna lagningar hitaveitu á Skagaströnd er 640 milljónir. Það var ekki arðbært að mati RARIK.
Skagstrendingar lýstu þá yfir vilja til að leggja fé í verkefnið, eða 180 milljónir – einnig til þess að gjaldskrá gæti verið sú sama og á Blönduósi. Ríkið leggur svo til 80 milljónir. Því verður ráðist í verkið og eru áætluð verklok árið 2014. Adolf Berndsen er oddviti sveitarstjórnar Skagastrandar.
„Það vill nú þannig til sveitarfélagið stendur ágætlega. Það er með verulegt eigið fé og skuldir eru litlar. Því teljum við réttlætanlegt, í ljósi mikilvægis þess að fá hitaveitu í samfélagið okkar, að leggja hlut af okkar fjármunum í þetta . Verkefni, sem nýtist flestum ef ekki öllum íbúum hér, bæði gerir byggðina áhugaverða fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það er meginforsenda þess að við leggjum þessa fjármuni í þetta mál.“