Skipt um gler í gluggum allra húsa í Grímsey

Ákveðið hefur verið að skipta um gler í gluggum nær allra íbúðarhúsa í Grímsey á kostnað ríkisins. Í þessu er talinn felast mikill sparnaður en hús í Grímsey eru hituð með olíu og húshitun niðurgreidd af ríkinu.

Þorpið í Grímsey er eina þéttbýlið hér á landi sem enn er hitað upp með olíu, en ríkið leggur til rúmar ellefu milljónir króna í niðurgreiðslur til húshitunar í eynni á þessu ári. Ýmsar leiðir hafa verið skoðaðar til að lækka þennan kostnað, meðal annars með þátttöku í evrópsku verkefni í samstarfi við danskan orkusérfræðing. Það leiddi til þess að ákveðið var að setja nýtt gler í alla glugga íbúðarhúsa í eynni og minnka þannig orkunotkun.

„Og þar sem hlutur ríkisins í upphitun í eynni er býsna mikill, þá reiknuðum við það út að við gætum í raun og veru gefið glerið, eða borgað allan glerkostnaðinn, en íbúar myndu þá sjá um ísetningu. Samt sem áður myndi ríkið á endanum spara til lengri tíma,“ sagði
Sigurður Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs í viðtali við fréttastofu RÚV.

Olía er niðurgreidd í tæplega þrjátíu húsum í Grímsey og segir Sigurður langflesta húseigendur ætla að taka þátt í verkefninu. Og hann vonast til að framkvæmdir geti hafist fljótlega eftir áramót. Áður hefur ríkið tekið þátt í kostnaði við glerskipti í um eitthundrað húsum á svokölluðum köldum svæðum en þetta er í fyrsta sinn sem glerið er greitt að fullu.

„Þetta hefur gefist mjög vel og kemur hlutunum af stað. Þarna fara framkvæmdir af stað, framkvændir sem skipta máli og eru ekki bara kostnaður fyrir ríkið heldur sparnaður og þá ekki síst fyrir íbúana,“ sagði Sigurður að lokum.

Af www.ruv.is