216% munur á húshitunarkostnaði

„Þessi samantekt leiðir margt áhugavert í ljós, eins og það að Orkuveita Reykjavíkur er ekki lengur með lægstu gjaldskrána í landinu,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkusetursins, sem vann að samantekt Orkustofnunar fyrir Byggðastofnun um orkukostnað heimilanna á nokkrum landsvæðum.

Samanlagður orkukostnaður, bæði hiti og rafmagn, er minnstur á Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi

Samantektin sýnir m.a. 216% mun á húshitunarkostnaði, þar sem hann er mestur í dreifbýli á veitusvæðum RARIK og minnstur á Sauðárkróki. Munurinn er minni á raforkukostnaði, hann er 55% meiri í dreifbýli hjá RARIK en á Akureyri. Byggðastofnun hefur ekki áður látið taka þennan kostnað saman en hyggst gera það árlega hér eftir, eins og með samanburð á fasteignagjöldum. Orkustofnun starfrækir Orkusetrið og þar er fylgst reglulega með orkukostnaðinum.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Orkuveitu Reykjavíkur lengi hafa verið með lægsta orkuverðið en eftir hrun hafi gjaldskráin verið hækkuð og fylgi nú breytingu á neysluvísitölu. Flestar aðrar veitur hafa ekki fylgt fordæmi OR og raunlækkun átt sér stað, líkt og á Akureyri og Stykkishólmi, miðað við verðlag í landinu.