Vel sóttur kynningarfundur um varmadælur

Kynningarfundur um varmadælur, sem haldinn var í Félagslundi Flóahreppi þriðjudaginn 7. febrúar sl., var vel sóttur en um fjörutíu manns mættu. Jón Sæmundsson, verkfræðingur hjá Verkís var með ítarlega kynningu á varmadælum, möguleikum þeirra í notkun og hagkvæmniútreikninga. Einnig flutti Árni Eiríksson erindi en hann hefur sett upp loft/loft varmadælur í sín hýbýli. Í máli Jóns kom m.a fram að þar sem stofnkostnaður varmadælna er hár þarf sparnaður á rafmagni að borga umframstofnkostnað. Orkusjóður stykir kaup á varmadælum sem nemur allt að átta ára niðurgreiðslum miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Niðurgreiðslur nema 4,25 kr/kWh.

Árlegur kyndikostnaður fyrir 150 m2 hús sem notar u.þ.b 35.000 kWh er með niðurgreiðslu rafmagns 278.719 kr. án/vsk á dreifisvæði Rarik í dreifbýli. Fyrir samskonar hús í þéttbýli sem hitað er með rafmagni væri kostnaður 243.748 kr. án/vsk.

Um þrjár tegundir varmadælna er að ræða fyrir íslenskan markað, loft/loft dælur, loft/vatn dælur og vatn/vatn dælur.

Loft/loft dælur hita ekki upp neysluvatn og henta vel í stærri rými þar sem varminn getur dreifst með loftinu. Miðað við að slík varmadæla kosti með uppsetningu 600.000 kr. án/vsk er reiknað með að slík dæla borgi sig upp á 4,5 árum án styrks frá Orkusjóði en 1,2 ár með styrk frá Orkusjóði.

Loft/vatn dælur tengjast beint inn á túpukerfi húsa og geta hitað upp neysluvatnið. Miðað við að dælan kosti með uppsetningu 1.300.000 kr. án/vsk er dælan 11 ár að borga sig upp án styrks frá Orkusjóði en 3,2 ár með styrk frá Orkusjóði. Tekið skal fram að framkvæmdakostnaður er meiri ef setja þarf upp ofna- eða gólfhitakerfi.

Vatn/vatn dælur tengjast beint inn á túpukerfi húsa og geta hitað upp neysluvatn. Óvissuatriði í tengslum við þessa gerð af dælum er öflun varmalindar og framkvæmdakostnaður utandyra getur verið töluverður.

Ef miðað er við að verð með uppsetningu sé 2.150.000 kr. án/vsk er þessi dæla um 12,6 ár að borga sig upp.

Af vef Flóahrepps, www.floahreppur.is