Tíðarfar árið 2011

Á vef Veðurstofu Íslands er birt yfirlit um tíðarfar á Íslandi árið 2011. Samkvæmt því var tíðarfar lengst af hagstætt á árinu um meginhluta landsins. Síðari hluti vors og fyrri hluti sumars voru þó óhagstæð um stóran hluta landsins en þeirrar erfiðu tíðar gætti lítið á Suðvesturlandi.

Hiti

Þrátt fyrir tvö mikil kuldaköst, var árið 2011 í heild hlýtt. Í Reykjavík var hiti um 1 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,4 stigum ofan við meðalhita áranna 1931 til 1960. Er þetta 16. árið í röð þar sem hiti er ofan meðallags í Reykjavík og 17. til 18. hlýjasta ár frá upphafi samfelldra mælinga 1871.

Í Stykkishólmi var hiti 0,9 stigum ofan meðallags og er það 20. til 23. hlýjasta frá upphafi mælinga þar 1845. Á Akureyri var hiti 0,8 stigum ofan meðallags og hið 13. í röð ofan meðallags og það 30. á hlýindalistanum.

Sérlega kalt var norðaustanlands síðari hluta maímánaðar og langt fram eftir júní. Mikið kuldakast gerði um land allt um mánaðamótin nóvember/desember og stóð nokkuð fram í desember. Á Akureyri var júní sá kaldasti síðan 1952, en hiti var við meðallag á Suðurlandi. Óvenjuhlýtt var hins vegar á landinu í apríl og nóvember. Aprílmánuður var í hópi allra hlýjustu mánaða norðaustan- og austanlands og nóvember nærri jafnhlýr að tiltölu.

Fréttin öll á vef Veðurstofunnar.