Kostnaður af hitun íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum lækkaði um áramótin þrátt fyrir að Orkubú Vestfjarða hafi hækkað sinn taxta. Lækkunin fæst með niðurgreiðslu á flutningi og dreifingu raforku til íbúðarhúsnæðis þar sem ekki er hitaveita. Frá og með 1. apríl verður kostnaðurinn niðurgreiddur að fullu. Þetta er í samræmi við lagabreytingu sem var samþykkt á Alþingi í vor.
Kristján Haraldsson Orkubússtjóri segir að hækkun á taxta Orkubúsins felist í auknum kostnaði á þeirra rekstri og tekur sem dæmi um 100 milljóna króna tjón í óveðrinu í byrjun desember þegar um 140 rafmagnsstaurar Orkubúsins brotnuðu.
Í þéttbýli hækkar orkutaxti Orkubúsins um 4% og í dreifbýli um 8%. Þrátt fyrir hækkanirnar þá munu auknar niðurgreiðslur skila sér til notenda. „Mér sýnist að fyrir meðalstórt einbýlishús sem notar 40 kílóvattsstundir, þá muni kostnaðurinn lækka um 25 þúsund á ári. Í dreifbýli er lækkunin minni en verður þó um 18 til 19 þúsund á ári,“ segir Kristján.
Frétt af vef ruv.is