Alþingi samþykkti þann 30. júní sl. breytingar á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Þarna var ákveðnu markmiði náð sem Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum hafa lengi barist fyrir.
Breytingar á lögunum byggja á tillögum sem starfshópur skipaður fulltrúum frá iðnaðarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum, RARIK og Orkubúi Vestfjarða lagði fram árið 2011.
Markmiðið með breytingunum er að lækka og jafna húshitunarkostnað á landinu en talsverður munur er á orkukostnaði eftir landsvæðum. Annars vegar er húshitunarkostnaður mun hærri hjá þeim íbúum sem ekki búa við hitaveitu og þurfa að notast við rafhitun til hitunar íbúðarhúsnæðis og hins vegar er dreifikostnaður raforku talsvert hærri í dreifbýli en þéttbýli. Ríkisvaldið hefur reynt að koma til móts við báða þessa þætti á undanförnum árum með lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar og með lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.
Með upptöku jöfnunargjalds á raforku, sbr. lög um breytingu á lögum nr. 98/2004 sem samþykkt voru á Alþingi 3. mars 2015, er tryggð full jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, í dreifbýli og þéttbýli, frá og með árinu 2016. Eftir stóð að tryggja að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu og með þessum lögum er því markmiði náð.