Vefritið www.bb.is birti á þriðjudaginn 15. júlí frétt þess efnis að heitt vatn hafi fundist við Patreksfjörð. Fréttin er svohljóðandi:
Heitt vatn finnst við Patreksfjörð
„Þetta þýðir að hægt er að ná upp vatni, að minnsta kosti 32 gráðu heitu. Þá verður hægt að setja vatn á varmadælur og nýta fyrir Patreksfjörð,“ segir Haukur Jóhannesson jarðfærðingur, en í haust vann Haukur og fyrirtæki hans að hitastigulsborunum á Patreksfirði. Í ljós kom að talsvert magn af heitu vatni fannst á svæðinu, en uppstreymi holunnar sem geymir heita vatnið er undir svokölluðum Geirseyrarmúla, sem liggur austan við Patreksfjörð. Lítil 12 gráðu heit volgra hafði komið mönnum á sporið fyrir mörgum árum og en hún gaf til kynna að heita vatn væri að finna á svæðinu. Fyrst nú hefur heita vatnið fundist, sem teljast verður gleðitíðindi fyrir íbúa Patreksfjarðar.
Áður en boranirnar fóru fram í haust hafði verið gerð úttekt á yfirborðsjarðhita í Vesturbyggð og valkostum vegna heitavatnsöflunar í Vesturbyggð. Haukur hafði þegar unnið greinargerðir þar sem fram kom að velgja hafi verið á tveimur stöðum í landi Geirseyrar. Annars vegar við svonefndan Hjördísarlund, og hins vegar inn á Mikladal. Nú hefur vatnið fundist, en níu grunnar holur voru boraðar og fannst það í síðustu holunni.
„Nú er ekkert annað í stöðunni en að ná í stærri bor og ná vatninu úr holunni. Þarna náðum við 25 gráðu heitu vatni en við þurfum að bora dýpra til að ná heitara vatni,“ segir Haukur, en umræddar boranir eru eingöngu til þess fallnar að kanna hvar heita vatnið liggi.
Á Patreksfirði er fjarvarmaveita og rekur Orkubú Vestfjarða kyndistöð á staðnum. Það er kostnaðarsamt fyrir íbúa og fyrirtæki að hita hús sín upp með þeim hætti, og ljóst er að ef hægt verður að nýta nýfundinn jarðvarma mun mikill sparnarður hljótast af fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Haukur segir líklegt að allt að 45 gráðu heitt vatn liggi í umræddri holu. „Efnafræðin segir okkur það.“ Haukur mun í næstu viku hefja jarðboranir í grennd við Tálknafjörð og leita að heitu vatni þar.