Skipt um gler í gluggum allra húsa í Grímsey

Ákveðið hefur verið að skipta um gler í gluggum nær allra íbúðarhúsa í Grímsey á kostnað ríkisins. Í þessu er talinn felast mikill sparnaður en hús í Grímsey eru hituð með olíu og húshitun niðurgreidd af ríkinu.

Þorpið í Grímsey er eina þéttbýlið hér á landi sem enn er hitað upp með olíu, en ríkið leggur til rúmar ellefu milljónir króna í niðurgreiðslur til húshitunar í eynni á þessu ári. Ýmsar leiðir hafa verið skoðaðar til að lækka þennan kostnað, meðal annars með þátttöku í evrópsku verkefni í samstarfi við danskan orkusérfræðing. Það leiddi til þess að ákveðið var að setja nýtt gler í alla glugga íbúðarhúsa í eynni og minnka þannig orkunotkun.

„Og þar sem hlutur ríkisins í upphitun í eynni er býsna mikill, þá reiknuðum við það út að við gætum í raun og veru gefið glerið, eða borgað allan glerkostnaðinn, en íbúar myndu þá sjá um ísetningu. Samt sem áður myndi ríkið á endanum spara til lengri tíma,“ sagði
Sigurður Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs í viðtali við fréttastofu RÚV.

Olía er niðurgreidd í tæplega þrjátíu húsum í Grímsey og segir Sigurður langflesta húseigendur ætla að taka þátt í verkefninu. Og hann vonast til að framkvæmdir geti hafist fljótlega eftir áramót. Áður hefur ríkið tekið þátt í kostnaði við glerskipti í um eitthundrað húsum á svokölluðum köldum svæðum en þetta er í fyrsta sinn sem glerið er greitt að fullu.

„Þetta hefur gefist mjög vel og kemur hlutunum af stað. Þarna fara framkvæmdir af stað, framkvændir sem skipta máli og eru ekki bara kostnaður fyrir ríkið heldur sparnaður og þá ekki síst fyrir íbúana,“ sagði Sigurður að lokum.

Af www.ruv.is

Styrkir til bættrar einangrunar

Iðnaðarráðuneytið í samvinnu við Orkusetur hefur ákveðið að styrkja húseigendur sem ráðast vilja í endurbætur á einangrun húsnæðis í þeim tilgangi að draga úr orkunotkun og þar með kostnaði við upphitun þess.

Átaksverkefni 2011 er beint að húsnæði sem byggt var fyrir 1945, áður en lágmarkskröfur til einangrunargilda (U-gilda) byggingarhluta voru settar í byggingarreglugerðir.

Umsóknareyðublöð má nálgast á heimasíðu Orkuseturs, www.orkusetur.is. Nánari upplýsingar fást í síma 569 6085. Einnig er hægt að hafa samband við Orkusetur í gegnum netfangið sif@os.is.

Átaksverkefni 2011.

Ótryggð raforka hækkar mikið

Ótryggð raforka mun hækka gríðarmikið, líklega um 80-100%, hjá flestum notendum að sögn Orkuvaktarinnar. Öllum samningum um ótryggða raforku var sagt upp frá og með áramótum af hálfu orkusala vegna fyrirhugaðra breytinga á skilmálum Landsvirkjunar.

Að sögn Orkuvaktarinnar munu skilmálar einnig breytast og verður notendum gert að skila inn áætlunum á einhverju formi sem standa verður við. „Skeiki áætlun um meira en sem nemur tilteknum vikmörkum, er notanda gert að greiða álag.

Ef notandi getur af einhverjum ástæðum ekki nýtt þá orku sem hann áætlaði, er hann samt sem áður skuldbundinn til að greiða fyrir hana. Það þarf því lítið útaf að bregða til að hækkunin verði í raun enn meiri,“ segir í frétt Orkuvaktarinnar.

„Þetta eru talsvert óvænt tíðindi og skilmálar af þessu tagi eru algjör nýmæli á almennum markaði eftir því sem Orkuvaktin kemst næst. Orkusölum hefur verið gert að skila inn ítarlegum áætlunum um orkusölu frá innleiðingu samkeppni á raforkumarkaði og er þessi aðferðarfræði væntanlega þaðan komin.

Þrátt fyrir þessar hækkanir er ótryggða orkan enn talsvert hagstæðari en forgangsorka í raforku og einnig talsvert ódýrari en notkun olíu.“

Af mbl.is 1. desember 2011.

Vefsíða SSKS

Ný vefsíða Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum er nú komin á veraldarvefinn. Síðunni er ætlað að halda utanum lög, reglugerðir og fróðleik er varða málefnið.

Vefsíðan er sett upp í WordPress vefsíðuforritinu og vistuð hjá þeim. Umsjón með uppsetningu síðunnar hafði Ingibjörg Hinriksdóttir.

 

13. ársfundur SSKS

Hér með er boðað til 13. ársfundar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum föstudaginn 14. október nk. kl. 13:00 í G-sal á 2. hæð Hilton Reykjavík Nordica hóteli, Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík.

Dagskrá:

1.     Skýrsla stjórnar.

2.     Ársreikningur 2011 lagður fram.

3.     Umræður um orkumál og framtíðarstefnu samtakanna.

4.     Fræðsluerindi: Ágúst Guðmundsson frá Fjarkönnun ehf. segir frá jarðhitaleit o.fl. með skönnum í flugvélum.

5.     Kosning þriggja manna stjórnar og þriggja varamanna.

6.     Önnur mál.

Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum

Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum voru stofnuð 20. nóvember 1996 og voru stofnendur 37 sveitarfélög. Tilgangur samtakanna er: að vinna að lækkun orkukostnaðar til húshitunar á „köldum svæðum“ að stuðla að (frekari) jarðhitaleit. að afla og dreifa upplýsingum um orkumál til aðildarsveitarfélaga að stuðla að aukinni þekkingu almennings á leiðum til orkusparnaðar. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, er formaður samtakanna.

Samtökin hafa aðstöðu á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga og er Magnús Karel Hannesson, sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs, starfsmaður þeirra.